Festa lífeyrissjóður hefur keypt 22 milljón hluti í Skeljungi og á nú ríflega hundrað milljón hluti, jafngildi ríflega fimm prósent í félaginu. Frá þessu er greint í tilkynningu en ef miðað er við núverandi markaðsverð Skeljungs nema kaupin 188 milljónum króna.

Fjárfestahópurinn sem stendur á bak við yfirtökutilboðið í Skeljungi hyggst afskrá félagið úr Kauphöll Íslands. Að baki tilboðinu standa þrjú félög; 365 hf., RES 9 og RPF og eiga þau samtals 39% hlut í Skeljungi. Aðspurður segir Baldur Snorrason, sjóðstjóri Festu lífeyrissjóðs, að sjóðurinn telji Skeljung undirverðlagt og hafi því ákveðið að kaupa stærri hlut.

Félögin þrjú munu setja hluti sína inn í félagið Streng sem mun senda inn yfirtökutilboð í Skeljung í síðasta lagi 6. desember næstkomandi og mun tilboðið gilda í fjórar vikur. Aðrir hluthafar en Stengur og lífeyrissjóðir eiga einungis um fimmtungshlut í Skeljungi. Yfirtökutilboðið er á genginu 8,315 krónur en við lokun markaða í dag stóðu bréf félagsins í 8,56 krónum.