Bjarni Ákason athafnamaður hefur keypt meirihlutann í félaginu Bako Ísberg. Fyrirtækið er þjónustufyrirtæki fyrir veitingageirann og býður upp á heildarlausnir fyrir stóreldhús fyrirtækja, stofnana, og veitingastaða. Velta fyrirtækisins var rúmar 800 milljónir á síðasta ári og starfsmenn þess eru 14.

„Þetta er mjög spennandi og áhugavert tækifæri sem ég ákvað að grípa þegar færi gafst. Ég hef verið lengi í tækngeiranum og mér fannst kominn tími til að færa mig um set og prófa eitthvað annað. Mér finnst afar áhugavert að fara nú yfir í veitingageirann. Það eru mikil tækifæri í þessum geira,“ segir Bjarni en hann var áður aðaleigandi og framkvæmdastjóri Epli.

Bjarni keypti meirihlutann í Bakó Ísberg af Guðmundi Kr. Jónssyni matreiðslumanni og Þresti Líndal rafiðnaðarfræðing. Þeir munu starfa áfram hjá fyrirtækinu. Sá fyrrnefndi verður sölustjóri og síðarnefndi þjónustustjóri. Bjarni tekur við sem framkvæmdastjóri.

„Við bjóðum upp á heildarlausnir fyrir stóreldhús allt frá minnstu áhöldum yfir í stærstu tæki og vélar fyrir bakara og matreiðslumenn, vinnufatnað, innréttingar, borðbúnað o.fl. Við erum með mjög góð og vönduð merki og erum með umboð fyrir merki eins og Rational, Winterhalter, Irinox, WMF, Villeroy & Boch, Steelite, Zwiesel glös svo einhver séu nefnd. Hér er öll flóran, allt frá minnstu eldhúsáhöldum yfir í stærstu tæki og vélar, ofna og innréttingar. Við erum einnig með öfluga tækndeild sem þjónar þessum iðnaði um allt land,“ segir Bjarni.

Meðal viðskiptavina Bako Ísberg má nefna Bláa lónið, Arion banka, Skelfiskmarkaðinn, Fiskmarkaðinn og fjölmörg hótel, stofnanir, skóla og leikskóla.

„Við leggjum mikla áherslu á umhverfisvænar lausnir m.a. hvað varðar allan úrgang. Tækin sem við flytjum inn eru með CE merkingu og fjöldi birgja okkar hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og vottanir hver á sínu sviði.  Við erum gríðarlega stolt af því að vera með íslenskt stýrikerfi á Rational ofnunum," segir Bjarni ennfremur.