Á vefsíðu norska dagblaðsins VG er í dag greint frá áhuga norska ríkisins á bílaverksmiðju SAAB í Svíþjóð sem er í sölumeðferð hjá General Motors.

Heimildir blaðsins herma að norsk yfirvöld sjái nú mögulæg tækifæri í að koma norska rafbílnum Think í frekari þróun og framleiðslu í bílaverksmiðju SAAB.

Að sögn VG hafa áður komið upp hugmyndir um að flytja framleiðslu Think frá Aurskog í Noregi til Svíþjóðar.

Expressen skrifar einnig um málið og segir að skoða verði áhuga Norðmanna í tengslum við rafbílinn Think. Þá kunni þetta einnig að tengjast áhuga hjá norska ríkinu að koma upp framleiðslu á bílnum erlendis. Einnig að Think kunni hugsanlega að útvíkka hugsunina varðandi tvinnbíla. Expressen segir þó að líklegasti kaupandinn að Saab sé kínverska fyrirtækið Geely.

Frestur til að skila inn tilboðum í Saab rennur út 20. maí. Er reiknað með að hægt verði að ganga frá sölu fyrirtækisins seinnihlutann í júní.