*

fimmtudagur, 3. desember 2020
Erlent 15. júlí 2020 19:18

Kaupir símafélag í fjárhagskröggum

Novator hefur keypt kólumbíska fjarskiptafyrirtækið Avantel og boðar stórsókn á kólumbískum fjarskiptamarkaði.

Ingvar Haraldsson
Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir hefur selt hluti í Play í Póllandi undanfarin ár.
Aðsend mynd

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur keypt meirihluta í kólumbíska fjarskiptafélaginu Avantel og boðað uppstokkun á rekstri þess og fjárhagslega endurskipulagningu. Greint var frá kaupunum í síðustu viku en kaupverðið hefur ekki verið gefið upp. Avantel hefur átt í fjárhagserfiðleikum samkvæmt fréttum kólumbískra fjölmiðla og er talið skulda helstu keppinautum sínum háar fjárhæðir vegna ógreiddra afnota af fjarskiptakerfum þeirra.

Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun í vetur og hefur síðan þá unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Avantel er með 2,3 milljónir viðskiptavina sem samsvarar um 3,5% markaðshlutdeild á kólumbískum fjarskiptamarkaði.

Fyrrverandi forstjóri WOM leiðir vinnuna

Novator hefur gefið út að félagið hyggist blása til sóknar á kólumbískum fjarskiptamarkaði. Novator vann í desember útboð á úthlutun á vissum tíðnisviðum á farsímaneti í Kólumbíu og þarf að sjá fyrir fjarskiptasambandi á 674 stöðum í landinu. Novator greiðir jafnvirði um 32 milljarða króna fyrir leyfin.

Novator var gert að greiða jafnvirði um 1,6 milljarða króna til kólumbískra yfirvalda eftir að hafa skilað einu leyfanna þegar í ljós kom að það hafði boðið tífalt hærra verð en til stóð fyrir það. Novator hefur áður byggt upp fjarskiptafélögin Play í Póllandi, Nova á Íslandi og WOM í Chile sem öll eru meðal þeirra stærstu í sínu ríki. Kólumbía er þó fjölmennasta landið þar sem Novator hefur hafið innreið á fjarskiptamarkaðinn, en um 50 milljónir búa í landinu.

Bretinn Chris Bannister, fyrrverandi forstjóri WOM og Play, hefur frá byrjun þessa árs leitt vinnuna við að byggja upp fjarskiptafélag Novator í Kólumbíu. Í nýlegu viðtali við kólumbíska fjölmiðla sagði hann að stefnt væri að því að fjarskiptafélag í eigu Novator myndi hefja starfsemi á fyrri hluta næsta árs.

Áður reynt að kaupa félagið

Novator átti í viðræðum um kaup á Avantel árið 2016 án þess að af samningum yrði. Búist er við að það veiti þremur stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins, Claro, Tigo og Telefonica, aukna samkeppni á næstu misserum. Fjölmiðlar í Kólumbíu hafa bent á að stjórnendur Telefonica, eins stærsta fjarskiptafyrirtækis heims, hafi gefið út að það hyggist reyna að hætta starfsemi í nokkrum ríkjum Suður-Ameríku, þar með talið Kólumbíu. Því gæti myndast tækifæri fyrir Novator í Kólumbíu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Aðstoðarhótelstjóri á Icelandair Hótel Hamar segist vera gífurlega ánægð með hversu vel hefur gengið í sumar en hótelið hefur fengið flestar ferðagjafir allra í sumar.
  • Dómur Hæstaréttar í innherjaupplýsingamáli Eimskips gæti leitt til þess að misvísandi upplýsingar verði sendar markaðnum.
  • Rætt er við forstjóra Landsvirkjunar og sérfræðing í orkumálum. Meðal annars um sögulega lágt raforkuverð og raforkusamninga Landsvirkjunar.
  • Framkvæmdastjórar ferðaskrifstofa segja að þó svo að COVID-19 faraldurinn hafi sett strik í reikninginn í rekstrinum séu þau bjartsýn á framhaldið.
  • Kristinn Ingi Lárusson hefur verið ráðinn vöruþróunarstjóri hjá Carbfix, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur.
  • Rætt er við Atla Þorbjörnsson, stofnanda Gangverks, meðal annars um vorsölu Sotheby's sem var í fyrsta sinn stafræn.
  • Ítarleg umfjöllun um afkomu íslenskra fjármálafyrirtækja á síðasta ári.
  • Nýjasta útgáfa af Land Cruiser 150 Luxury er reynsluekin.