Lions Gate Lighting Corp., Bandarískt fyrirtæki sem að stórum hluta er í eigu íslenskra aðila, keypti fyrir helgi 33% hlut í túnfiskeldinu Baja Aquafarms og öðlaðist um leið rétt til að kaupa upp öll önnur bréf fyrirtækisins. Kaupverð hlutarins er 8 milljónir bandaríkjadala, um milljarður króna, að því er fram kemur í tilkynningu vegna kaupanna.

Lions Gate Lighting Corp var nýverið tekið yfir af íslenska fyrirtækinu Atlantis Group og hópi bandarískra fjárfesta og sameinað króatíska fyrirtækinu Kali Tuna, sem fyrir var í eigu Atlantis Group. Nafni Lions Gate verður á næstu vikum breytt í Umami Sustainable Seafood, að því er segir í tilkynningu.

Baja Aquafarms er mexíkóskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í San Diego. Meginhluti starfsemi fyrirtækisins fer fram á mexíkósku hafsvæði, skammt sunnan við landamæri Bandaríkjanna.

Kali Tuna og Baja Aquafarms rækta Bláuggatúnfisk sem einkum er seldur á Japansmarkaði, en einnig í Evrópu og Bandaríkjunum.

Forstjóri og stjórnarformaður Lions Gate Lighting Corp.(Umami Sustainable Seafood) er Óli Valur Steindórsson, en hann er einnig forstjóri Atlantis Group.