Laun á Íslandi frá 2008 til 2019 mæld í evrum hækkuðu um 84,4% en að jafnaði um 28,7% innan Evrópusambandsins. Árið 2008 voru laun hérlendis þau 15. hæstu á EES-svæðinu, mæld í evrum, en frá 2016 hefur Ísland verið í 4.-5. sæti. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

Launavísitalan hækkaði um nær 100% frá árinu 2006 til og með 2019 eða um sex prósent á ári að jafnaði. Á áðurnefndu tímabili jókst kaupmáttur um 30% og er hækkunin öll tilkomin frá og með árinu 2014 þar sem kaupmáttur lækkaði í kjölfar hrunsins. „Launavísitalan hækkaði minnst á tímabilinu um 3,9% á árinu 2009 og mest um 11,4% á árinu 2016.“

Fram kemur að launaþróun hér á landi hefur verið „mjög frábrugðin“ því sem gerist hjá samanburðarlöndum okkar. Einnig hefur kaupmáttarþróun á undanförnum árum verið einstök. Frá 2012 til 2019 hækkuðu laun hérlendis um 79% mælt í evrum. Á sama tíma hækkuðu laun í Þýskalandi um 17% og lækkuðu í bæði Svíþjóð og Noregi, um 3% og 11%. „Gengi sænsku og norsku krónunnar skiptir máli fyrir þessa þróun, sérstaklega þá norsku.“