Launavísitalan var nær óbreytt milli nóvember og desember, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Breytingin á ársgrundvelli var 6% sem er svipað og verið hefur síðustu mánuði. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli var nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. ár, frá vori 2017 fram á vor 2018, en lækkaði þá niður í kringum 6% og hefur haldist þar síðan. Greint er frá þessu í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Desember var síðasti mánuður 3ja ára samningstímabils á almenna markaðnum og því kemur ekki á óvart að lítið sé að gerast. Síðasta hækkunin vegna stóru samninganna á almenna markaðnum var í maí og hefur verið nokkuð rólegt á þeim markaði síðan.

Launavísitalan hækkaði um 6,5% milli ársmeðaltala áranna 2017 og 2018, sem er eilítið minna en árið áður, þegar hún hækkaði um 6,8%. Hækkunin í fyrra var sú sama og meðalhækkunin frá árinu 1989, eða 6,5%, sem er mjög mikið í samanburði við nálæg lönd.

Kaupmátur aukist verulega

Kaupmáttur hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna mánuði, en minnkaði um 0,7% í desember. Kaupmáttur var engu að síður 2,2% meiri nú í desember en í desember árið áður. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 23%, eða tæplega 7% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd.

Launahækkanir áþekkar á almenna og opinbera markaðnum

Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á einu ári, frá október 2017 til október 2018, má sjá að launahækkanir á almenna og opinbera markaðnum hafa verið áþekkar, eða rúm 6%. Laun starfsmanna ríkisins hækkuðuð mest en launahækkanir hjá sveitarfélögum minnst.

Nú þegar kjarasamningar á öllum vinnumarkaðnum eru lausir eða við það að losna hefst jafnan mikil umræða um samanburð milli hópa. Sagan sýnir ótvírætt að launaþróun á opinbera og almenna markaðnum er mjög svipuð til lengri tíma. Yfir styttri tímabil er alltaf um einhverjar sveiflur að ræða en þær jafnast alla jafna út.

Sé þannig litið á síðustu 4 ár, sem var heildarsamningstíminn á almenna markaðnum, má sjá að laun starfsmanna á opinbera markaðnum hafa hækkað um 34,8% en laun á almenna markaðnum um 34,6% þannig að lokaniðurstaðan er sú sama. Munurinn á hópunum er mismunandi eftir tímabilum, en meðalstaða hópanna á tímabilinu öllu er sú sama. Það má því slá því föstu að laun stóru hópanna á vinnumarkaði hafi þróast með nákvæmlega sama hætti síðustu 4 ár.

Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá október 2017 til sama tíma 2018 var mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, 7%. Laun sérfræðinga hafa hækkað áberandi minnst á þessu tímabili, einungis um 2%.

Markmið síðustu kjarasamninga náðst nokkuð vel

Sé litið til atvinnugreina hafa laun hækkað mest í annars vegar flutningum og geymslustarfsemi og hins vegar í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð frá nóvember 2017, eða í kringum 7%. Laun í framleiðslu og í fjármála- og vátryggingastarfsemi hafa hækkað minnst. Launavísitalan hækkaði um 6% á þessum tíma þannig að laun í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð hafa hækkað töluvert umfram meðaltalið en laun í framleiðslu töluvert minna.

Kaupmáttur lækkaði í desember að einhverju ráði í fyrsta skipti í frá upphafi ársins 2015. Á árum áður var staðan yfirleitt sú að staða kaupmáttar var orðin slæm í lok samningstímabils og þurfti þá oft að vinna til baka glataðan kaupmátt í stað þess að auka hann.

Þessi staða er allt önnur nú, kaupmáttur hefur fram til þessa verið nokkuð stöðugur sé miðað við launavísitölu og almennt má segja að þau markmið sem sett voru í síðustu kjarasamningum hafi náðst nokkuð vel.