Þrátt fyrir atvinnuleysi sé í hæstu hæðum hér á landi og landsframleiðsla dregist talsvert saman, hefur kaupmáttur launa hækkað umtalsvert. Er um að ræða einsdæmi í hagsögunni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Korni Greiningar Íslandsbanka um atvinnuleysi .

Þar segir jafnframt að byrði kórónukreppunnar virðist vera mjög misskipt á milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem hafa hana ekki. Fyrrnefndi hópurinn muni koma til með að halda einkaneyslu uppi á árinu og telur Greining bankans því að einkaneyslan muni vaxa að nýju í ár.

Kaupmáttur launa jókst þrátt fyrir mikla verðbólgu

„Samkvæmt vinnumarkaðskönnuninni [vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar] mældist fjöldi starfandi 70,7% af mannfjölda á fyrsta ársfjórðungi og lækkaði um 2,5% frá sama ársfjórðungi árið 2020. Þetta hlutfall er sögulega lágt og á meðal þriggja lægstu mælinga frá upphafi. Hlutfall starfandi er fjöldi þeirra sem var við vinnu á tímabilinu borinn saman við heildar mannfjölda á vinnualdri (16-74 ára),“ segir m.a. í greiningunni.

„Kaupmáttur launa jókst um 6,0% milli ára á fyrsta ársfjórðungi 2021 þrátt fyrir að verðbólga hafi verið með mesta móti, eða 4,2% á tímabilinu. Hækkunina má helst rekja til launahækkana um áramót sem voru samkvæmt kjarasamningum og náðu til meirihluta launafólks á vinnumarkaði. Auk þess telst stytting vinnuvikunnar sem ígildi launabreytinga og hefur því talsverð áhrif til hækkunar á launavísitölunni. Samkvæmt vinnumarkaðskönnuninni var vinnuvikan um 1,4 klukkustundum styttri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við fyrsta ársfjórðung 2020. Þar gæti þó áhrif COVID einnig spilað inn í. Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur kaupmáttaraukningarinnar hjaðni nokkuð í apríl þegar áhrif samningsbundinnar hækkunar launa hjá flestum launþegum fyrir ári síðan hverfa úr mælingunni. Allt bendir þó til að áfram mælist aukning á kaupmætti launa næstu fjórðunga,“ segir jafnframt í greiningunni.