Launavísitalan í september hækkaði um 0,2% frá fyrra mánuði samkvæmt frétt Hagstofunnar í morgun. Tólf mánaða hækkun launa nemur nú 5,3%. Verðbólgan var 3,4% á sama tímabili og því jókst kaupmáttur launa um 1,9%. Verðbólga hefur samkvæmt þessu étið upp tæplega tvo þriðju af launahækkunum tímabilsins. eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka.

Tólf mánaða hækkun kaupmáttarins var meiri nú í september (1,9%) en í ágústmánuði (1,5%). Það sem af er árinu hefur tólf mánaða hækkun kaupmáttarins sveiflast á bilinu 0,9%-2,0%. Kaupmáttaraukningin nú er þó talsvert minni en hún var á seinni hluta ársins 2002 og á árinu 2003.