Kaupmáttur launa mælist nú svipaður og hann var á 2. ársfjórðungi 2006, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Hins vegar gæti þróunin næstu ársfjórðunga orðið nokkuð önnur en raunin var á sama tíma í fyrra. Frá marsmánuði 2012 fram til síðustu áramóta minnkaði kaupmáttur launa um 0,4%, enda hækkaði verðlag í landinu nokkuð meira en sem nam launaskriði.

Frá áramótum hefur kaupmáttur aukist um 1,9% og segir í Morgunkorninu að haldi krónan núverandi styrk gæti kaupmátturinn aukist enn frekar fram á haustið, sem muni væntanlega hjálpa til við að halda hóflegri hækkun naflauna í komandi kjarasamningum í árslok.

Að mati Greiningar Íslandsbanka er útlit fyrir að vísitala neysluverðs lækki í apríl, og ef krónan veikist ekki verulega að nýju fyrir haustið líti út fyrir að verðlag hækki fremur lítið fram undir vetur. Kaupmáttur gæti því aukist nokkuð til viðbótar fram eftir árinu, jafnvel þótt launaskrið reynist hóflegt.

„Ef sú verður raunin og verðbólguhorfur haldast þokkalega jákvæðar mun það væntanlega minnka þrýsting á verulega nafnlaunahækkun til að ná fram kaupmáttaraukningu í komandi kjarasamningum, en núverandi samningar eru lausir í nóvemberlok á þessu ári. Hófsamir kjarasamningar myndu svo aftur bæta verðbólguhorfur til meðallangs tíma, enda skiptir launaþróun verulegu máli fyrir innlendan verðþrýsting. Ekki er þó sopið kálið fyrr en í ausuna er komið, og rétt að hafa í huga að ýmislegt getur gengið á fram að kjarasamningunum í haust,“ segir í Morgunkorninu.