Kaupmáttur launa rýrnaði um 1,0% milli janúar og febrúar sem kemur til vegna 1,2% hækkunar á vísitölu neysluverðs á tímabilinu á sama tíma og launavísitalan hækkaði um einungis 0,2%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í júní í fyrra sem kaupmáttur launa dregst saman á milli mánaða.

Greining Íslandsbanka fjallar um tölur Hagstofunnar frá því í morgun í Morgunkorni sínu í dag. Þar segir að kaupmáttur gæti rýrnað enn frekar á næstu mánuðum. Það sé þó meðal annars háð því hvenær kjarasamningar nást.

„Ekki er loku fyrir það skotið að kaupmáttur komi til með að rýrna enn frekar næsta kastið milli mánaða, þá ef þróun verðbólgunnar verður á svipuðu róli og við spáum og þróun launa verður svipuð og hún hefur verið að undanförnu. Þessi framvinda er þó háð því hvenær kjarasamningar nást og samningsbundnar launahækkanir koma til framkvæmda. Á síðustu tólf mánuðum hefur kaupmáttur launa aukist um 2,2% og dregur nokkuð úr tólf mánaða taktinum frá fyrri mánuði en hann var 2,5% í janúar.“