Kaupmáttur launa hækkaði lítillega í júlí. Hagstofan segir að vísitala kaupmáttar launa í júlí hafi verið 113,8 stig og hækkað um 0,2% frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 1,6%. Launavísitalan lækkaði aftur á móti um 0,1% frá fyrri mánuði, en hefur hækkað um 5,5% síðastliðna tólf mánuði.

Kaupmáttur sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu hægt er að kaupa fyrir laun. Óbreyttur kaupmáttur frá fyrra ári þýðir að hægt er að kaupa sambærilega vörukörfu og fyrir ári. Kaupmáttur er oftast reiknaður sem breyting launa að teknu tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs.