Árangur af samningum í upphafi ársins 2014 var einstakur hvað kaupmáttarþróun varðar skv. Hagsjá Landsbankans sem birtist í dag.

Bent er á að kaupmáttaraukning á síðasta ári hafi verið 5,8% á meðan launavisitalan hækkaði um 6,6%. Í ár hefur launavísitalan hækkað um 6,1% en kaupmátturinn um 3,6% á fyrstu átta mánuðum ársins. Þó er bent á að samningar ársins 2014 voru gerðir fyrr á árinu og því koma áhrif þeirra fyrr fram.

Í Hagsjánni má sjá að kaupmáttur launa féll um um 14% frá miðju ári 2007 til maí 2010. Hann náði þó fyrra hámarki í nóvember í fyrra og er núna rúmlega 3% hærri. Raunlaun hafa því aldrei verið hærri.

Að lokum er bent á að það höfrungahlaup sem er á vinnumarkaði sé áhyggjuefni, en þó megi sjá að aðilar séu farnir að staldra við og hugsa sinn gang. Óheppilegt er að ekki hafi tekist að endurvekja samvinnu milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins um sameiginlega kjarastefnu.