Laun landsmanna hafa hækkað um 10,8% á síðustu tólf mánuðum en verðbólga mældist hins vegar 7,6% á sama tímabili, segir greiningardeild Glitnis.

?Kaupmáttur hefur því vaxið um 3% yfir síðustu tólf mánuði samkvæmt þessum tölum, en Hagstofan birti launavísitölu septembermánaðar í morgun. Frá áramótum hefur þó dregið úr kaupmætti launa með verðbólguskotinu sem gekk yfir í kjölfar gengisfalls krónunnar.

Minni kaupmáttur ætti að stuðla að hægari vexti einkaneyslu og höfum við spáð því að einkaneysla dragist saman á næsta ári. Á móti vegur að kaupmáttur launa hefur tekið að vaxa á ný á síðustu mánuðum þar sem laun hafa hækkað hraðar en verðlag á neysluvörum," segir greiningardeildin.

Hún segir að laun hafi hækkað um 0,5% í september en þá hækkun má að mestu rekja til kjarasamningsbundinna launahækkana á almennum markaði.

?Atvinnuleysi er lítið sem ekkert um þessar mundir eða 1% af vinnuafli. Hefur lítið atvinnuleysi stuðlað að launaskriði á vinnumarkaði og aukið við undirliggjandi verðbólguþrýsting. Sennilega hefur atvinnuleysi þó náð lágmarki og líkur virðast á að það vaxi eitthvað á næstu misserum þar sem minni hagvöxtur virðist framundan," segir greiningardeildin.