*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 24. júní 2021 11:58

Kaupmáttur jókst í faraldrinum

Atvinnuleysi mældist 5,8% í maí og þá hefur kaupmáttur á ársgrundvelli hækkað um 2,9% en óvanalegt er að hann hækki á krepputímum.

Ritstjórn
Samkvæmt greiningunni mældist árshækkun launavísitölunnar 7,5%.

Kórónukreppan er fyrsta samdráttarskeiðið í hagsögu Íslands þar sem kaupmáttur launa minnkar ekki samfara auknu atvinnuleysi í niðursveiflu í hagkerfinu. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.

Launavísitalan hækkaði um 0,4% í síðasta mánuði og er árshækkun vísitölunnar 7,5%. Hún hefur þó aðeins misst dampinn frá því í febrúar og mars á þessu ári þegar hún mældist 10,6%. Helsta ástæðan er sú að launahækkanir frá því í apríl í fyrra mælast ekki lengur í vísitölunni.

Hækkun launavísitölunnar á milli mánaða er að miklu leyti komin vegna styttingar vinnuvikunnar hjá starfsfólki á opinberum vinnumarkaði sem tók gildi í maí. Verð hverrar vinnustundar hækkar í samræmi við föst mánaðarlaun og færri vinnustundir.

Kaupmáttur launa hélst óbreyttur í maí en á ársgrundvelli hefur kaupmátturinn aukist um 2,9%. Þá hefur einnig hægst á vexti kaupmáttar af sömu ástæðu og nefnd hér að ofan varðandi launavísitöluna en einnig vegna þrálátar verðbólgu þrálátrar verðbólgu en hún var 4,6% í apríl.

Nokkuð óvanalegt er að laun hækki jafnframt svo miklu atvinnuleysi en atvinnulausir hafa borið þungan og reynst erfiðara að finna vinna í faraldrinum. Þegar hæst lét á fyrsta fjórðungi þessa árs nam atvinnuleysi 11,3%. Samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar var atvinnuleysi í maí 5,8% en samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi 9,1%. 

Stikkorð: Íslandsbanki