*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 27. september 2019 10:03

Kaupmáttur jókst um 2%

Ráðstöfunartekjur á mann jukust um tæp 5% í fyrra en kaupmáttur sömu tekna jókst um 2%.

Ritstjórn
Launatekjur heimilageirans jukust um 9,1%.
Haraldur Guðjónsson

Heildartekjur heimilageirans árið 2018 jukust um 8,1% frá fyrra ári en ráðstöfunartekjur heimilageirans jukust um 7,6%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar um nýjar tölur um kaupmátt, en þar eru ráðstöfunartekjur heimilanna skilgreindar sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna, reiknaðs rekstrarafgangs vegna eigin eignarhalds, þar með talið íbúðarhúsnæðis, en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum. 

Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 4,8% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 2,0%.

Af heildartekjum heimilageirans í fyrra jukust launatekjur um 9,1% og rekstrarafgangur vegna eiginignarhalds um 6,6%, en eignatekjur drógust saman um 10,5%. Heildartilfærslutekjur jukust um 10,9% milli ára.

Heildareigna- og tilfærsluútgjöld jukust um 8,9%, þar af jukust tilfærsluútgjöld um 10% en eignaútgjöld drógust saman um 0,5%.