Kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri segir í nýju fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins og hann hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 1994 þegar hann var í lágmarki og að hann er 40% hærri nú en þá var. Aukning kaupmáttar frá árinu 1999, þ.e. á síðasta samningstímabili sem var fjögur ár og það sem liðið er af þessu samningstímabili, er 14% samkvæmt útreikningum SA.

Þegar litið er á tímabilið í heild þá var kaupmáttur launa í september 2005 16,5% hærri en fyrir aldarfjórðungi og hefur hann að jafnaði vaxið um 0,6% árlega að jafnaði á þessum 25 árum. Kaupmátturinn minnkaði á níunda áratugnum um 15% og jókst síðan um rúm 20% á þeim tíunda. Það var ekki fyrr en á árinu 1999 að kaupmáttur ársins 1980 náðist á ný. Árleg kaupmáttaraukning að jafnaði frá 1999 er 2,2% sem er þrefalt meira en að jafnaði síðasta aldarfjórðunginn.

Tekjuskattur ríkisins á launafólk hefur verið lækkaður á þessu ári og svo var einnig gert á árunum 1997-1999. Kaupmáttur ráðstöfunartekna, þ.e. launa eftir skatt, hefur því aukist enn meira en kaupmáttur launa. Samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins verður kaupmáttur ráðstöfunartekna liðlega 60% hærri á þessu ári en árið 1994 og tæplega 20% hærri en árið 1999. Slík aukning kaupmáttar, eða með öðrum orðum slíkur lífskjarabati, á sér vart nokkra hliðstæðu meðal þróaðra ríkja á svo skömmum tíma segir í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins.