Á sama tíma og launahækkanir hafa verið hóflegar hefur verðbólgan geisað, sem gerir það að verkum að kaupmáttur launa hefur minnkað hratt og hefur nú ekki verið lægri hér á landi síðan í árslok 2002.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í dag en undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa dregist saman um 8,2% og frá því að kaupmáttur launa náði hámarki í ársbyrjun síðasta árs hefur hann minnkað um 11,6%.

Laun hækkuðu um 0,2% í júní frá fyrri mánuði samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands sem birt var í morgun. Greining Íslandsbanka segir þetta mun minni hækkun en á sama tíma fyrir ári síðan þegar laun hækkuðu um 1,2% frá fyrri mánuði.

Þá kemur fram í Morgunkorni að undanfarna 12 mánuði hafa laun hækkað um 3% en í júní árið 2008 höfðu laun hækkað um 8,5% fyrir sama tímabil.

„Launaþróun síðustu mánaða hefur verið mjög hófleg miðað við það sem áður var þegar vinnu- og launamarkaðurinn einkenndist af mikilli þenslu og launaskriði,“ segir í Morgunkorni.

„Núna hefur hinsvegar syrt í álinn, en allt frá hruninu síðasta haust hefur vinnumarkaðurinn einkennst af auknu atvinnuleysi, hópuppsögnum og jafnvel beinum nafnlaunalækkunum í mörgum tilvikum. Þess vegna furða sig eflaust margir á því að þrátt fyrir þessar gríðarlegu mótdrægu aðstæður hafi laun hækkað um 1,3% frá því í október þegar hrunið skall á. Helstu ástæður þessarar þróunar eru samningsbundnar launahækkanir sem samið var um fyrir hrun en hafa komið til framkvæmda á tímabilinu.“

Engar launalækkanir á opinberum vinnumarkaði

Þá segir Greining Íslandsbanka að lítil hefð sé fyrir lækkun nafnlauna á Íslandi og þrátt fyrir að nokkuð hafi verið um lækkun nafnlauna á almennum vinnumarkaði undanfarna mánuði hafi til að mynda ekki verið gripið til slíkra aðgerða á opinberum vinnumarkaði.

„Reikna má með að launahækkanir verði enn hóflegar á næstu mánuðum,“ segir í Morgunkorni.

„Þær launahækkanir sem samið var um í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins komu til framkvæmda um síðustu mánaðamót og mun áhrifa þeirra því gæta  á launavísitölu júlímánaðar. Þeir samningar sem náðust þá munu vera til hliðsjónar í öðrum kjarasamningum sem ganga þarf frá á næstu misserum og því má reikna með að öll kjarasamningsgerð verði enn um sinn með hóflegu sniði enda aðstæður á vinnumarkaði enn afar erfiðar. Skráð atvinnuleysi mælist nú 8,1%, og reikna má með að það aukist enn með haustinu og nái svo hámarki í byrjun næsta árs í kringum 10%.“