Á sama tíma og launahækkanir hafa verið litlar hefur verðbólgan geisað, sem gerir það að verkum að kaupmáttur launa hefur minnkað hratt. Hann hefur ekki verið lægri hér á landi síðan í árslok 2002.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun hækkuðu laun einungis um 0,03% í ágúst frá fyrri mánuði sem er mun minni hækkun en á sama tíma fyrir ári þegar laun hækkuðu um 0,46% frá fyrri mánuði.

Undanfarna 12 mánuði hafa laun hækkað um 2,2% en í ágúst árið 2008 höfðu laun hækkað um 9,1% fyrir sama tímabil skv. tölum frá Hagstofu Íslands.

Kaupmáttur launa minnkaði um 0,5% á milli júlí og ágúst og frá því að kaupmáttur launa náði hámarki í byrjun síðasta árs hefur hann minnkað um 11,9%. Greining Íslandsbanka segist reikna með því að kaupmáttur haldi áfram að rýrna á næstu mánuðum

Sjá nánar í Morgunkorni Íslandsbanka.