Kaupmáttur launa er í dag svipaður og hann var á síðari hluta árs 2002. Greining Íslandsbanka fjallar um málið í morgunkorni sínu í dag. Þar er sagt að frá því að kaupmáttur náði hámarki í ársbyrjun 2008 hefur hann að jafnaði minnkað um 11,3%. Þannig hefur meginhluti kaupmáttaraukningar frá síðustu aldamótum gengið til baka undanfarin tvö og hálft ár.

Greining Íslandsbanka telur að meira jafnvægi sé framundan í þróun kaupmáttar. Í tölum hagstofunnar um launaþróun á 2. ársfjórðungi kemur fram að kaupmáttur hafi aukist um 2,6% í júní frá fyrri mánuði. Að mati greiningarinnar virðist jákvæðari þróun hafin og reikna má með því að kaupmáttur launa haldi áfram að vaxa á næstunni. Spilar þar hjöðnun á verðbólgu stórt hlutverk.