Kaupmáttur fólks sem starfar í fjármálageiranum, þ.e. bönkum, lífeyrissjóðum og tryggingafélögu, hefur aukist um rúm 14% á síðastliðnu tveimur og hálfu ári. Innan þessa hóps eru sérfræðingar og skrifstofufólk en kaupmáttur þess hefur aukist mest á tímabilinu, að því er fram kemur í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans .

Í ritinu segir að kaupmáttur launa er nú á svipuðum stað og á árinu 2005 en hefur aukist nokkuð frá botni í upphafi ársins 2010. Þá segir í Hagsjánni að kaupmáttur nú er lægri en í upphafi árs 2008 í öllum greinum nema í samgöngum og flutningum. Mesti samdrátturinn er hjá þeim sem vinna í byggingum og mannvirkjagerð þar sem kaupmáttur er um 13% lægri en var í upphafi ársins 2008.

Hagræðideildin bendir á að kaupmáttur launa jókst nokkuð í kjölfar kjarasamninga um mitt ár 2011. Kjarasamningarnir fólu að margra mati í sér of miklar launahækkanir enda hefur reyndin verið sú að kaupmáttur hefur ekki aukist að marki síðan þrátt fyrir töluverðar launahækkanir, að því er segir í Hagsjánni.

Þá er bent á að launavísitalan hefur nú hækkað um rúm 19% frá upphafi ársins 2011. Á sama tíma hafi hækkanir á verðlagi, m.a. vegna þessara launahækkana, orðið til þess að kaupmáttur hefur einungis aukist um 5% á sama tíma.

„Sé miðað við verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans til loka samningstímans og hóflega hækkun launavísitölu á næstu mánuðum er ekki ólíklegt að kaupmáttur verði u.þ.b. 4% hærri í lok samningstímans en hann var í upphafi ársins 2011, og næstum sá sami og í upphafi þessa árs,“ segir Hagfræðideild Landsbankans í Hagsjánni.