Kaupmáttur launa mælist nú tæp 2% og er það í samræmi við þróunina fyrr á árinu. Launavísitalan hækkaði um 0,7% á milli mánaða, sem er mesta hækkun vísitölunnar síðan í mars síðastliðnum þegar áhrifa kjarasamninga gætti síðast í launum. Greining Íslandsbanka segir hækkunina nú í september ekki koma á óvart enda árstíðabundin og skýrist af því að ýmsar álagsgreiðslur sem oft eru í lágmarki yfir sumarmánuðina koma inn að nýju í mánuðinum. Má þar nefna bónusgreiðslur fiskverkunarfólks.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að í nýútkominni þjóðhagsspá sé gert ráð fyrir því að vöxtur kaupmáttar launa nemi 1,5% að jafnaði á árinu og er sá vöxtur ein meginskýring á 1,6% vexti einkaneyslu í spá okkar. Þróunin fram til þessa sé í samræmi við spánna.

„Nokkrar sveiflur gætu orðið í kaupmáttarþróuninni næstu mánuði, enda standa kjarasamningar nú fyrir dyrum. Ef niðurstaða næst í þeim á komandi vikum er líklegt að launavísitalan, og þar með 12 mánaða takturinn í kaupmáttarþróun, taki nokkurn kipp upp á við. Sá kúfur gengur svo til baka, a.m.k. að hluta, þegar samningsbundin hækkun á 1. fjórðungi þessa árs dettur út úr 12 mánaða taktinum snemma á næsta ári. Það veltur svo á niðurstöðu kjarasamninga og verðbólguþróun í kjölfarið hvort kaupmáttarvöxturinn verður áfram með svipuðum hætti og verið hefur. Við gerum í spá okkar ráð fyrir að kaupmáttur launa vaxi um 1,3% á næsta ári að jafnaði, og að vöxturinn verði 1,8% árið 2015,“ segir Greining í Morgunkorni sínu.