Þrátt fyrir að verð á hráolíu sé nálægt sögulegu hámarki hefur kaupmáttur aðildarríkja Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) í milliríkjaviðskiptum fallið um þriðjung vegna veikrar stöðu Bandaríkjadals gegn helstu gjaldmiðlum heimsins. Þessi staðreynd kann að ráða miklu um ákvörðunartöku samtakanna um framleiðslumagn á næstu misserum.

Í frétt blaðsins Financial Times um þróun olíuverðs og gengi Bandaríkjadals kemur fram að útreikningar OPEC sýni að þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíufati sé nálægt sögulegu hámarki, eða 78,65 dölum en verðið fór upp í þær hæðir í ágústmánuði í fyrra, þá hefur raunvirði hráolíu fallið undanfarna tólf mánuði sé tekið tillit til gengisþróunar dalsins og verðbólgu. Hin vegna OPEC karfa verðþróunar á hráolíumörkuðum sýnir að meðalverð á hráolíufati nú er um 43,60 dalir miðað við 44,30 dali fyrir tólf mánuðum.

Á síðasta fundi samtakanna, sem fór fram fyrir þremur mánuðum, lýsti forseti þeirra, Mohamed Bin Dhaen al Hamli, yfir áhyggjum yfir veikri stöðu dalsins á gjaldeyrismörkuðum og sagði ástandið hafa veruleg áhrif á kaupmáttargetu aðildarríkja OPEC í alþjóðaviðskiptum. Síðan þá hefur gengi Bandaríkjadals haldið áfram að veikjast gagnvart gjaldmiðlum eins og evrunni og sterlingspundinu. Ekki sér fyrir endann á þeirri þróun vegna væntinga um óbreytt vaxtastig í Bandaríkjunum og á sama tíma eru stýrivaxtahækkanir fyrirsjáanlegar bæði á evrusvæði og í Bretlandi. Í byrjun vikunnar var gengi dalsins í sögulegu lágmarki gagnvart evru og hafði ekki verið lægra gagnvart breska pundinu í tuttugu og sex ár. Vandinn er djúpstæðari en ella fyrir OPEC-ríkin þar sem að milliríkjaviðskipti þeirra hafa beinst í auknu mæli til aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB). Ríki eins og Egyptaland og Súdan, sem flytja út töluvert magn af olíu en eiga ekki aðild að OPEC, standa jafnframt frammi fyrir sama vandamáli.

Financial Times hefur eftir Eric Chaney, sem er hagfræðingur hjá Morgan Stanley, að útreikningar bendi til þess að tíu prósenta veiking á Bandaríkjadal gagnvart helstu gjaldmiðlum hafi í för með sér fimm prósenta kaupmáttarskerðingu í milliríkjaviðskiptum aðildarríkja OPEC.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.