Kaupmáttur launa hefur að jafnaði aukist um 10% í ár frá fyrra ári, ef miðað er við fyrstu tíu mánuði hvors árs. Hraðari aukning kaupmáttar milli ára hefur ekki mælst milli ára undafarna áratugi. „Mikill vöxtur einkaneyslu í ár helst í hendur við sögulega mikinn kaupmáttarvöxt. Síðasta uppsveifla var ólík að þessu leyti en þá var vöxtur einkaneyslu á tímabili margfalt hraðari en sem nam kaupmáttarvexti,“ segir í greiningu Greiningar Íslandsbanka á samspili kaupmáttar og einkaneyslu.

Að mati Greiningar Íslandsbanka, þá eiga heimilin fyrir þessum vexti einkaneyslu og jafnvel gott betur.

Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands um launavísitölu og vísitölu kaupmáttar sést að launavísitalan hækkaði um 0,3% í október og hefur undanfarna 12 mánuði hækkað um 10,4%. Kaupmáttur launa hefur því vaxið meira á þessu ári að jafnaði en dæmi eru um síðustu áratugi.

Gífurlega hröð kaupmáttaraukning

„Vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 0,3% í október frá mánuðinum á undan og 12 mánaða hækkunartaktur vísitölunnar mældist því 8,5% í mánuðinum. Líkt og með launavísitölu var kaupmáttaraukning launa þó hraðari fyrr á árinu, og nam aukning kaupmáttar launa að jafnaði 10% á tímabilinu janúar-október frá sama tíma í fyrra. Fara þarf aftur um 18 ár til að finna svo hraða kaupmáttaraukningu í tölum Hagstofunnar, og þá aðeins um þriggja mánaða skeið.

Ástæða þess hversu hratt kaupmáttur launa vex þessa dagana er í sem stystu máli sú að hröð styrking krónunnar hefur vegið á móti verulegri hækkun innlends kostnaðar í verðlagsþróun hér á landi. Á móti ríflega 10% hækkun meðallauna m.v. launavísitölu í október og tæplega 13% árshækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis skv. VNV-mælingu sama mánaðar vegur rúmlega 14% styrking krónu á tímabilinu ásamt afar lítilli innfluttri verðbólgu. Því  er heildar kostnaðarþrýstingur á verðlag hóflegur þessa dagana og launþegar njóta að mestu leyti nafnhækkunar launa án þess að umtalsverð verðbólga éti hana upp,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Einkaneysluvöxturinn hægari en kaupmáttaraukning

Einkaneysla óx um 7,7% á fyrri helming þessa árs frá sama tíma í fyrra samkvæmt bráðabirgðartölum Hagstfounnar. En einkaneysluvöxturinn var því nokkru hægari samkvæmt þessum tölum en nam kaupmáttaraukningunni.

„Er þá ekki tekið tillit til þess að landsmönnum fjölgaði á tímabilinu, sem alla jafna ætti að skila ríflega 1% aukningu einkaneyslu milli ára, auk þess sem atvinnuleysi hefur minnkað og atvinnuþátttaka aukist á tímabilinu. Þetta samband kaupmáttar og einkaneyslu er því með allt öðrum hætti þessa dagana en var í uppsveiflunni fyrir u.þ.b. áratug síðan,“ er einnig tekið fram.

Að lokum segir í frétt Greiningar Íslandsbanka að þau höfðu spáð því að vöxtur einkaneyslu myndi nema 8,1% á yfirstandandi ári. Ef tekið er tillit til kaupmáttaraukningu laun, fólksfjöldaþróunar og vísbendinga á borð við kortavelti gæti verið að vöxturinn verði enn hraðari. Kaupmáttarþróunin er hins vegar til marks um að íslensk heimili eigi fyrir vextinum og gott betur.