Ráðstöfunartekjur heimilanna hækkuðu ívið minna á síðasta ári en næstu árin þar á undan, eða um 6,1%, en þær hækkuðu um 7,7% milli áranna 2017 og 2018 og 9,3% milli 2016 og 2017 að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans . Kaupmátturinn hafi hins vegar aukist um ríflega helming síðustu 20 árin.

Undanfarinn aldarfjórðung hafa ráðstöfunartekjur á mann á Íslandi hins vegar vaxið um 90% að raungildi að því er Íslandsbanki hefur tekið saman, eða um 2,6% á ári að jafnaði.

Þá jukust ráðstöfunartekjur á mann um 3,8% á árinu 2019, en kaupmáttur ráðstöfunartekna um 0,7% á hvern landsmann, og námu þær því 4,3 milljónum króna að meðaltali á mann. Er það aukning um þriðjung á undanförnum áratug, og eru ráðstöfunartekjurnar nú að jafnaði 100 þúsund krónum hærri að raunvirði en á hátindi þenslutímans fyrir hrun.

Fyrsta lækkun frá árinu 2013

Greiningardeildir beggja ríkisbankanna telja horfur til þess að ráðstöfunartekjur geti minnkað í ár og á næsta ári, samfara auknu atvinnuleysi, verðbólgu og erfiðum rekstri margra smærri fyrirtækja sem fylgi minni rekstrartekjur frá eigin rekstri.

Yrði það í fyrsta sinn frá árinu 2013 sem ráðstöfunartekjur á mann skreppi saman, þó kaupmáttur launa muni vaxa um nálega 3% miðað við þróun launavísitölu og neysluverðs, en á móti kemur minni ráðstöfunartekjur heimila sem búi við atvinnuleysi.
Þannig muni þróun ráðstöfunartekna verða mjög mismunandi milli þeirra sem halda sínu starfi og þeirra sem lenda í atvinnuleysi.

Greining Landsbankans tekur saman aukninguna frá aldamótum, en kaupmátturinn hefur aukist um 2,3% á ári að meðaltali eða um alls 53% frá 1999 til 2019, þar sem var aukning á hverju ári utan áranna 2008 til 2010.

Á árinu 2008 var kaupmáttur ráðstöfunartekna óbreyttur og hann féll svo um 14% og 12% árin þar á eftir. Á árunum fyrir hrun þá hækkuðu ráðstöfunartekjur mun meira en launavísitalan, en á árunum 2011 til 2016 þróuðust hvort um sig með svipuðum hætti.