Kaupmenn virðast þegar farnir að undirbúa sig undir stórhækkun á virðisaukaskatti sem margir reikna með að stjórnvöld setji á um næstu mánaðamót. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru stóru verslanakeðjurnar þegar byrjaðar að birgja sig upp af gosdrykkjum á gamla verðinu í gríðarlegu magni. Gosdrykkjakaupin nú munu vart mun eiga sér hliðstæðu og hafa verksmiðjur vart undan að vinna upp í pantanir. Reikna flestir með að virðisaukaskattur, allavega á gosdrykkjum og sælgæti, verði hækkaður í 24,5%.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra boðaði í júní stórhækkun á óbeinum sköttum og var þá m.a. aukin skattlagning á áfengi og tóbak. Í skýrslu ráðherrans um jöfnuð í ríkisfjármálum var einnig getið um mögulega hækkun á virðisaukaskatti án þess að tímasetning væri þar tiltekin.

Virðisaukaskattur er nú lagður á í tveimur þrepum, almennt þrep er 24,5% og lægra þrep er 7%, sem í er matvara og nokkrar tegundir annarrar vöru og þjónustu.

Í skýrslunni segir einnig að hækkun á lægra skatthlutfallinu úr 7% í 12% eins og algengt er hjá þjóðum sem hafa tvö skattþrep gæti leitt til um 7 milljarða króna tekjuhækkunar og hækkun í 14% gæfi af sér um 10 milljarða króna. Hækkun á almenna hlutfallinu úr 24,5% í 25% eins og tíðkast í Danmörku gæfi um 2 milljarða króna í auknar tekjur.

Þá sagði í skýrslu ráðherrans  að unnt sé að ná nokkrum tekjuauka og jafnframt nálgast önnur markmið með því að færa einstaka vöruflokka milli þrepa.

„Þessi breyting kæmi eins til álita sem viðbót við einhverja hækkun lægra þrepsins. Þeir vöruflokkar sem helst koma til álita eru óhollustuvöru svo sem sælgæti og sykraðar drykkjavörur (feitletrun blaðamanns) en slíkar vörur voru færðar í lægra skattþrepið við lækkun þess fyrir skömmu. Þessi breyting styður við framkomin áform um að sporna við sykurneyslu barna, sem reyndar á einnig við um aðra aldursflokka líka. Álitamál er hvort breyting sem þessi hafi verðlagsáhrif í samræmi við aukin skattskil. Verðlagning á gosdrykkjum er t.d. líklega meira háð markaðsstöðu en tilkostnaði,” segir í skýrslunni.