Undirbúningur er í fullum gangi hjá verslunarfólki vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst á morgun. Búist er við jafnvel meiri sölu en var í kringum EM fyrir tveimur árum.

Viðar Valsson, verslunarstjóri knattspyrnuvöruverslunarinnar Jóa útherja, segir söluna á íslensku landsliðstreyjunni hafa gengið vel. „Salan núna er töluvert betri en fyrir Evrópumótið 2016. Þetta er einnig allt öðruvísi sala, hún fór miklu fyrr af stað þar sem fólk þekkti hvernig þetta var frekar en 2016 þegar þetta var allt frekar óvænt. Auk þess held ég að treyjan sé komin á þann stall í dag að líkt og með treyjur Manchester United og Liverpool þá er sama hvernig hún lítur út, fólk vill eignast íslensku landsliðstreyjuna.“

Viðar segir að vinsælast sé að merkja treyjurnar með nöfnum stærstu stjarna liðsins. „Gylfi er langvinsælastur en á eftir honum koma Aron Einar og Jóhann Berg. Þá eru einnig margir sem velja sér númer landsliðsmannanna en setja svo sitt eigið nafn aftan á treyjuna.“

Aukin sjónvarpssala

„Það er marktækur munur á milli tímabila hjá okkur í sölu á sjónvörpum,“ segir Auður Jónsdóttir, markaðsfulltrúi hjá ELKO. „Fólk er að koma sér upp góðum sjónvörpum fyrir HM og er mest sala á 55-65 tommu háskerpusjónvörpum. Það er okkar tilfinning að fólk sé að undirbúa sig fyrir mótið og vilji leyfa sér að horfa á mótið í nýjum tækjum.“ Hún segir að almennt aukist salan á sjónvörpum í kringum stóra sjónvarpsviðburði. „Hér áður fyrr var alltaf meiri sala í kringum Eurovision en nú hafa stórmót í fótbolta að einhverju leyti tekið við.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • „Kreppuhöllin" kemst loks í notkun
  • Gagnrýni hagfræðiprófessors á nýja skýrslu um peningastefnu Íslands
  • Auknar kröfur bankanna til verktaka
  • Umdeild skýrsla um framtíð Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
  • Hundruð milljóna króna samningur íslensks hugbúnaðarfyrirtækis
  • Koma sjóðsstýringafélags á íslenskan markað
  • Samanburður á þjóðhagsspám greiningaraðila
  • Emil Grímsson, stofnandi Arctic Trucks er í ítarlegu viðtali
  • Fyrirtæki sem aðstoðar frumkvöðla að taka fyrstu skrefin
  • Fjallað er um nýjasta stýrikerfi Apple
  • Sérstakt bílablað fylgir blaðinu
  • Óðinn skrifar um fullveldið og íslenska krónu
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur