Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 12. desember til og með 18. desember 2014 var 115. Þar af voru 79 samningar um eignir í fjölbýli, 21 samningur um sérbýli og 15 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Kemur þetta fram á vefsíðu Þjóðskrár.

Heildarveltan var 4.662 milljónir króna og meðalupphæð á samning 40,5 milljónir króna.

Þegar þessar tölur eru bornar saman við meðaltal síðustu 12 vikna kemur í ljós að samningar voru heldur færri, því meðaltalið hefur verið um 127 samningar á viku. Hins vegar var meðalupphæð á samning í þessari viku hærra en meðaltalið, sem er 37,9 milljónir.