Kaupsamningum fækkaði um 30% á milli mars og apríl en eftirspurnin er þó enn gífurleg. Þetta kemur fram í frétt frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Þrátt fyrir töluverðan samdrátt er eftirspurn eftir íbúðum enn gífurleg og hefur aldrei verið meiri en undanfarið ár. Eftirtekt vekur að þrátt fyrir þessa miklu eftirspurn héldust verðhækkanir í hófi þangað til í mars þegar að töluverðar hækkanir sáust á milli mánuða. Virðist skortur á íbúðum farin að skila sér í auknum verðhækkunum.

Sjá einnig: Íbúðaverð hækkað um 14% á einu ári

Ótti er um að bóla sé farin að myndast á fasteignamarkaði. Seðlabankinn hækkaði til að mynda nýverið stýrivexti um 0,25% í fyrsta sinn frá árinu 2018 út af verbólguáhyggjum og til að slá á þenslu á fasteignamarkaðinn.

Sjá einnig: Ógöngur á fasteignamarkaði?

Þó að fjöldi kaupsamninga hafa dregist saman um 30% á milli mánaða hafa þeir aldrei verið fleiri í aprílmánuði en nú á þessu ári. Mars var metmánuður í fjölda kaupsamninga en þeir voru í heildina 1.671 í mánuðinum en 1.157 í apríl. Þá er líklegt að þeim muni fjölga umtalsvert en þeim getur fjölgað afturvirkt eftir því sem fleiri kaupsamningar eru þinglýstir. Til að mynda fjölgaði þeim afturvirkt um tæplega 200 í mars.