Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst töluvert á milli vikna í vikunni. Síðustu átta vikur hafa verið nokkuð rokkandi hvað veltu varðar.

Þannig nam veltan í vikunni 2.540 milljónum króna samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands, samanborið við 1.807 milljónir króna veltu í vikunni á undan og jókst því um 41% á milli vikna.

Fjögurra vikna meðalvelta lækkaði þó í vikunni og er nú 1.912 milljónir króna. Fjögurra vikna meðalvelta hefur lækkað um tæpar 100 milljónir króna á fjórum vikum.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú aukist um 35% á milli ára en hafði á sama tíma í fyrra aukist um 27% á milli ára.

Tólf vikna meðalvelta hækkaði um 11 milljónir króna á milli vikna í vikunni og nemur nú 1.748 milljónum króna. Þá má skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði en hún er nú 1.670 milljónir króna á viku og hefur aukist um 18% á milli ára.

Í síðustu viku :

Alls var 102 kaupsamningum þinglýst í vikunni en fjöldi samninga hefur ekki verið svo mikill frá því í sömu viku í marsmánuði árið 2008. Alls var 56 samningum þinglýst að meðaltali á viku á síðasta ári en 65 samningum að meðaltali á viku það sem af er þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning nam 24,9 milljónum króna í vikunni, samanborið við 23,8 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári var 28,2 milljónir króna en er 27,9 milljónir króna það sem af er ári.

Meðaltal síðustu 12 vikna er 27,2 milljónir króna á hvern samning.