Heildarvelta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu nam 29 milljörðum króna í ágúst. Þetta kemur fram í markaðsfréttum Þjóðskrár Íslands .

Þar kemur fram að fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í ágúst hafi verið 780. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 18,6 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 8 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 2,3 milljörðum króna. Meðalupphæð á hvern kaupsamning var 37,1 milljón króna.

Makaskiptasamningar voru 13 í ágúst 2015 eða 1,8% af öllum samningum. Í júlí 2015 voru makaskiptasamningar 42 eða 3% af öllum samningum. Í ágúst 2014 voru makaskiptasamningar 11 eða 2,3% af öllum samningum. Makaskiptasamningur er þegar hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign.

Þegar mánuðurinn er borinn saman við sama tímabil í fyrra fjölgar kaupsamningum um 56,6% og velta eykst um 64,6%. Í ágúst 2014 var 498 kaupsamningum þinglýst, velta nam 17,6 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 35,3 milljónir króna.

Þegar mánuðurinn er hins vegar borinn saman við júlímánuð fækkar kaupsamningum um 46,2% og velta minnkar um 46,1%. Í júlí 2015 var 1451 kaupsamningi þinglýst, velta nam 53,8 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 37,1 milljón króna.