Kaupsamningum um fasteignir í nóvember á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 5% og velta minnkaði um 6% frá fyrri mánuði. Alls voru 281 kaupsamningi þinglýst í nóvember á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt gögnum Þjóðskrár.

Heildarvelta nam 7,4 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 26,4 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 4,8 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 2,3 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 0,3 milljörðum króna.

Miðað við sama mánuð í fyrra fjölgar kaupsamningum um 35% og velta minnkar um 23%. Í nóvember í fyrra var 207 samningum þinglýst og nam velta 9,8 milljörðum króna. Meðalupphæð á hvern kaupsamning var þá 47,1 milljón króna.

„Makaskiptasamningar voru 25 í nóvember 2010 eða 9,3% af öllum samningum. Í október 2010 voru makaskiptasamningar 36 eða 12,7% af öllum samningum. Í nóvember 2009 voru makaskiptasamningar 56 eða 29,3% af öllum samningum. Makaskiptasamningur er þegar hluti kaupverðs er greitt með annarri fasteign. Upplýsingar um makaskiptasamninga eiga eingöngu við um íbúðarhúsnæði.

Vakin er athygli á að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar, misgamlar o.s.frv.,“ segir í frétt Þjóðskrár um fasteignamarkaðinn í nóvember.