Kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fækkar en fjölgar víða annars staðar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans.

Í júní var 355 kaupsamningum vegna íbúðarhúsnæðis þinglýst á höfuðborgarsvæðinu, sem er talsverð fækkun frá því í júní fyrir ári síðan þegar samningar voru 481 talsins. Alls mældist 31% samdráttur á milli ára á öðrum ársfjórðungi á höfuðborgarsvæðinu, en 0,5% aukning utan þess.

Meðan samdráttur mælist á höfuðborgarsvæðinu, mælist aukning víða utan þess. Á Akureyri, Akranesi og á Árborgarsvæðinu var alls staðar fleiri kaupsamningum þinglýst á öðrum ársfjórðungi í ár samanborið við sama fjórðung í fyrra. Mest var aukningin á Akranesi þar sem 57% fleiri kaupsamningum var þinglýst, á Akureyri mældist aukning upp á 18%, og 12% á Árborgarsvæðinu.

Það kemur örlítið á óvart að sjá svona mikla aukningu á tímum þar sem kreppir að, og samningum fækkar á höfuðborgarsvæðinu, en þessi niðurstaða gæti verið til marks um það að fólk hafi í auknum mæli leitað út fyrir höfuðborgarsvæðið í leit að húsnæði. Aukningin utan höfuðborgarsvæðis veldur því að samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi er ekki jafn mikill og búast hefði mátt við yfir landið allt, þar sem í kaupsamningum fjölgar um 0,5% utan höfuðborgarsvæðis, en fækkar 31% innan þess. Það ber þó að hafa í huga að mislangur biðtími getur verið eftir skjölum úr þinglýsingu eftir sýslumannsembættum, sem kann einnig að vera skýring á ólíkri þróun eftir landssvæðum.