Kaupthing Bank Luxembourg S.A., dótturfélag Kaupþings Búnaðarbanka hf., hefur keypt allt hlutafé líftryggingarfélagsins PFA Pension Luxembourg. Seljandi er danski lífeyrissjóðurinn PFA Pension. Starfsemi PFA Pension Luxembourg felst einkum í sölu söfnunarlíftrygginga og eru viðskiptavinir þess, bæði einstaklingar og fyrirtæki.

Tilgangur kaupanna er bæði að breikka viðskiptamannagrunn Kaupthing Bank Luxembourg í Einkabankaþjónustu og að auka vöruframboð, þ.e. bjóða söfnunarlíftryggingar, til núverandi viðskiptavina. Eigið fé PFA Pension Luxembourg er 45 milljónir danskra króna (525 milljónir íslenskra króna) og eignir félagsins nema 375 milljónum danskra króna (4,4 milljörðum íslenskra króna). Kaupverð er trúnaðarmál.

Áformað er að kaupin gangi í gegn í janúar næstkomandi, en þau eru háð samþykki Tryggingaeftirlitsins í Lúxembourg.