Þegar Alþingi samþykkti lög um stöðugleikaskatt á slitabú föllnu bankanna var einnig samþykkt bráðabirgðaákvæði sem þrengdi kröfulýsingarfrest þeirra til muna sem telja sig eiga búskröfu í slitabúin. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins var þetta gert að tilstuðlan Kaupþings. Fram að lagasetningunni var hægt að lýsa kröfum að atkvæðagreiðslu um nauðasamning en eftir breytinguna var frestur veittur til 15. ágúst síðastliðins. Lögin voru birt 18. júlí og því veitti löggjafinn aðeins 29 daga frest til handa þeim sem töldu sig eiga kröfur á búin en höfðu ekki lýst kröfu fram að þeim tíma.

Herma heimildir Morgunblaðsins að Kaupþing hafi beitt sér fyrir því gagnvart Alþingi að kröfulýsingarfresturinn yrði styttur með þeim hætti sem raun varð á, ekki síst af ótta við aðgerðir fjárfestisins Vincents Tchenguiz sem staðið hefur í málaferlum við slitabúið á síðustu árum og haldið fram hundraða milljarða fjárkröfum á hendur því og endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton fyrir breskum dómstólum.

Hróbjartur telur hættu á að þeir aðilar sem ekki náðu að lýsa kröfum í búið, en telja sig hafa ástæðu til þess, muni mögulega leita réttar síns fyrir dómstólum.

„Í ljósi þess hversu umfangsmikil starfsemi slitabúanna hefur verið á undanförnum árum má gera ráð fyrir því að mörg dæmi séu um ágreining varðandi þá starfsemi. Þeir aðilar sem eiga í ágreiningi við slitabúin vegna þessarar starfsemi eru nú í þrengri stöðu en þeir voru áður en lögin voru samþykkt þar sem löggjafinn hefur með þeim takmarkað möguleika þeirra til að lýsa kröfum sínum. Það er augljóst í mínum huga hvað slitastjórn Kaupþings gekk til þegar tillagan að þessum stutta fresti var lögð fram. Þar var stjórnin einfaldlega að koma í veg fyrir að aðilar gætu lýst kröfum á hendur búinu,“ segir Hróbjartur.