Að sögn Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings hefur Kaupthing Edge gengið vel það sem af er árinu og heildarinnlán nálgast nú 600 milljarða króna. Þar af hafa 200 milljarðar bæst við í júní og júlí.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupþing en Hreiðar Már hélt ávarp á ráðstefnu svissneska bankans UBS um Norræna banka sem haldin var í Stokkhólmi í dag.

Hann sagði Kaupþing því stefna hraðbyri að markmiði sínu um að hlutfall innlána af útlánum verði 50% fyrir árslok.

Kaupþing hóf markvissa sókn á innlánamarkað í Evrópu á síðari hluta ársins 2007.

Innlánabankinn Kaupthing Edge hefur, samkvæmt tilkynningunni, nú verið stofnaður á ellefu mörkuðum, nú síðast í Austurríki í dag.

Kaupþing hélt af því tilefni fjölmennan blaðamannafund og hefur opnunin vakið mikla athygli í Austurríki að því er fram kemur í tilkynningunni.