Hlutabréfasjóðurinn Kaupthing Fund Global Value hefur fengið fjórar stjörnur af fimm mögulegum í einkunn frá hinu virta matsfyrirtæki Standard & Poors. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupþing banka.


Gengi sjóðsins hefur hækkað um 48% undanfarin þrjú ár sem er 13% hækkun umfram viðmið. Einkunnin endurspeglar ávöxtun að teknu tilliti til áhættu í samanburði við aðra sambærilega sjóði segir í tilkynningunni.


Kaupthing Fund Global Value er með hæstu stjörnueinkunn allra erlendra hlutabréfasjóða sem stýrt er á Íslandi. Sjóðurinn er metinn gagnvart hópi 672 annarra alþjóðlegra hlutabréfasjóða. Til þess að fá fjórar stjörnur frá S&P þarf áhættuleiðréttur árangur sjóðsins að vera í efsta fjórðungi alþjóðlegra hlutabréfasjóða undanfarin þrjú ár.


Kaupthing Fund Global Value er hlutabréfasjóður í umsjón eignastýringar Kaupþings banka. Sjóðurinn fjárfestir á hverjum tíma í 30-45 hlutabréfum á mörkuðum í Bandaríkjunum, Evrópu, Asíu og á nýmörkuðum.