Kaupþing ehf. á í viðræðum við kaupsýslumanninn Ajay Khaitan um kaup á tískuvörukeðjunum Oasis, Warehouse og Coast fyrir 60 milljónir sterlingspunda, eða því sem nemur um 8 milljörðum króna. Um málið er fjallað í The Sunday Times , en einnig fjallaði Ríkisútvarpið um kaupin.

Khaitan á eignarhaldsfélagið Emerisque Brands, sem á í viðræðum við Kaupþing um kaup á keðjunum þremur. Í frétt Sunday Times kemur fram að indverskir dómstólar hafi gefið út handtökuskipun á hendur Khaitan vegna gruns um skjalafals í kröfufjármögnunarviðskiptum fyrir 30 árum.

Að sögn talsmanns Khaitan kemur fram að hann hafi borgað skuldina til baka og að hann hafi ekki komist til Indlands til þess að mæta fyrir rétt vegna málsins, þar sem að hann hafi flutt til Bretlands fyrir ríflega 20 árum síðan. Talsmaðurinn tók einnig fram að ferill Ajay sem kaupsýslumaður talaði fyrir sjálfan sig og að minniháttar dómsmál væri óviðkomandi þeirri sögu.

Alls starfa um 5.000 manns í keðjunum þremur í um 750 verslunum þeirra. Keðjurnar eiga allar við fjárhagsvandræði að stríða. Coast hagnaðist 1,3 milljónum punda í fyrra samanborið við 10,8 milljón punda tap árið áður. Oasis hagnaðist um 6,3 milljónir punda og Warehouse tapaði 1,3 milljónir punda. Kaupþing vildi ekki tjá sig um málið.