Kaupþing og Glitnir virðast hafa haft með sér samráð um að halda uppi verði á hlutabréfum í bönkunum. Ýmis gögn sem hafa fundist í rannsókn yfirvalda benda til þessa. Fréttastofa RÚV greindi frá í kvöldfréttum.

Í fréttinni kemur fram að við rannsókn sérstaks saksóknara hafi komið fram upplýsingar sem benda til að bankarnir hafi haft samráð sín á milli. Bankarnir keyptu hlutabréf hvors annars, af hvor öðrum. Þann 6. september 2007 keypti Kaupþing hlutabréf í Glitni af Glitni fyrir nærri 1,5 milljarða króna. Á sömu mínútu keypti Glitnir hlutabréf í Kaupþingi, af Kaupþingi, fyrir sömu upphæð.

Þannig losnuðu bankarnir við eigin bréf í bókum sínum og héldu uppi hlutabréfaverði, segir í frétt RÚV.

Rannsakendur telja að þetta hafi verið gert að undirlagi æðstu manna. Þeir telja að þetta sé dæmi um stórfelld svik og markaðsmisnotkun.