*

fimmtudagur, 20. júní 2019
Innlent 13. febrúar 2018 17:28

Kaupþing selur sjóðum 5% í Arion banka

Innlendir verðbréfasjóðir og erlendir fjárfestingasjóðir eignast 5,34% hlut Kaupþings í Arion banka.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Búið er að ganga frá kaupum á 5,34% hlut í eigu Kaupþings í Arion banka til innlendra verðbréfasjóða, Goldman Sachs og Attestor Capital fyrir 9,53 milljarða króna. Erlendu sjóðirnir kaupa samtals 2,8% hlut í bankanum, og íslensku aðilarnir 2,54% hlut. 

Innlendu aðilarnir eru 24 sjóðir í stýringu hjá Stefni, Íslandssjóðum, Landsbréfum og Júpiter.

Tryggingarfélög munu ekki þiggja boð um að kaupa hlut í Arion banka að svo stöddu samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Stefnt er að skráningu Arion banka á markað í vor. 

Salan þýðir að 25 milljarða arðgreiðslur til hluthafa Arion banka, sem samþykktar voru á hluthafafundi bankans í gær munu virkjast. Arðgreiðslan var skilyrt við að Kaupþingi tækist að selja minnst 2% hlut í bankanum fyrir 15. apríl næstkomandi. Þá var einnig samþykkt heimild Arion banka til að kaupa 10% af eigin bréfum fram til 15. apríl og mun kaupverðið þá dragast frá fjárhæð arðgreiðslnanna.

Lífeyrissjóðir tilkynntu Kaupþingi fyrir helgi að þeir hygðust ekki kaupa hlut í Arion banka að svo stöddu. Gildi benti á í yfirlýsingu í dag að lífeyrissjóðnum hefði borist kauptilboð á hlut í Arion banka 24. janúar. Gildi hafi því haft skamman tíma til að meta fjárfestinguna en Kaupþing hefur lagt mikla áherslu á að ganga frá sölu áður en uppgjör Arion banka verður birt á morgun. Ríkissjóður hefur forkaupsrétt á hlutum í Arion banka sé kaupverðið undir 0,8 krónum á hverja krónu af eigin fé. Því mun hagnaður hjá Arion banka á síðasta ársfjórðungi hafa í för með sér hækkun á eigin fé bankans og þar með hækkun á því verði sem forkaupsréttur ríkisins virkjast við.

„Gildi óskaði eftir að fá meiri tíma til að meta fjárfestinguna, ekki síst til að fá tækifæri til að leggja mat á endurskoðað uppgjör Arion banka sem birt verður á morgun. Ekki náðist saman um það. Þá ríkir enn talsverð óvissa um skráningu Arion banka á markað og einnig skortir að mati sjóðsins skýrari sýn á framtíðarrekstur bankans,“ segir í frétt á vef Gildis.

Eftir söluna mun Kaupþing eiga 52% hlut í Arion banka í gegnum félagið Kaupskil ehf., ríkissjóður mun áfram eiga 13% og Goldman Sachs og þrír erlendir vogunarsjóðir eiga samtals um 30% í bankanum.

Stærstur hluti kaupverðsins og væntra arðgreiðslna Arion banka mun renna til ríkissjóðs sem hluti af stöðugleikaframlagi Kaupþings.

Fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum um kaupendurna og kaupverð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is