*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 8. febrúar 2013 17:28

Kaupþing semur við Sheikh Al-Thani

Samkomulag slitastjórnarinnar við Al-Thani er heildaruppgjör milli aðila og hættir Kaupþing þar með málarekstri gegn honum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Kaupþing hf. og Sheikh Mohammed Bin Khalifa Bin Hamad Al-Thani, ásamt tengdum aðilum, hafa náð samkomulagi um uppgjör sín á milli, að því er segir í frétt á vef slitastjórnarinnar. Samkomulagið er viðskiptalegs eðlis og felur ekki í sér viðurkenningu aðila á bótaskyldu. Samkomulagið er heildaruppgjör á milli aðila, og felur meðal annars í sér að Kaupþing hættir málarekstri gegn Sheikh Mohammed Bin Khalifa Bin Hamad Al Thani fyrir íslenskum dómstólum. Skilmálar samkomulagsins eru að öðru leyti trúnaðarmál á milli aðila.

Málið snýst um 50 milljóna dala láni, jafnvirði 6,4 milljarða króna samkvæmt gengi dagsins í dag, sem hann fékk frá Kaupþingi í september 2008. Lánið var veitt til félagsins Brooks Trading Ltd. til móts við framtíðarávinning sem gæti skapast vegna kaupa félagsins á lánshæfistengdu skuldabréfi, sem gefið var út af Kaupþingi.

Lánið var veitt án persónulegrar ábyrgðar Al-Thani. Viðræður hafa staðið í nokkuð langan tíma milli slitastjórnarinnar og Al-Thani. Til stóð að stefna Al-Thani fyrir íslenskum dómstólum, en einhver áhöld hafa verið um það hvort það hafi verið gert. Sigurður Einarsson hélt því fram í greinargerð sinni í máli Sérstaks saksóknara gegn honum, en þegar Viðskiptablaðið spurðist fyrir um það hjá Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma sagði dómurinn að ekkert slíkt mál hefði verið þingfest þar.

Stikkorð: Kaupþing Al-Thani