Slitastjórn Kaupþings hefur ákveðið að fresta framlagningu nauðasamnings. Til stóð að leggja samninginn fram nú á þriðja ársfjórðungi en í tilkynningu sem birt var á vef þrotabúsins í gær segir að vegna ýmissa útistandandi mála verði að fresta framlagningunni fram á síðasta ársfjórðung þessa árs. Sú tímasetning er þó sett fram með þeim fyrirvara að ásættanleg niðurstaða náist í ýmsum óleystum málum sem valdi töfum á slitaferlinu og séu ekki öll á valdi slitastjórnarinnar. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

„Það liggur ekki fyrir hvernig þetta verður útfært,“ hafði Viðskiptablaðið þá eftir Feldísi Óskarsdóttur, sem á sæti í slitastjórn Kaupþings. Þegar nauðasamningar verða í höfn verður Kaupþing að eignarhaldsfélagi. Fulltrúar kröfuhafa taka við stjórn þess og fer þá slitastjórnin frá. Alþjóðlegt ráðningarfyrirtæki vinnur nú þegar að því að finna framkvæmdastjóra og aðila með þekkingu, reynslu og bakgrunn til setu í stjórn eignarhaldsfélagsins sem tekur við Kaupþingi. Bæði er leitað eftir íslenskum og erlendum aðilum.