Þrotabú Kaupþings var í dag sýknað af rúmlega átta milljóna króna kröfur Níels Kára Níelsen vegna skuldabréfakaupa Níelsar í gegnum Kaupþing á sínum tíma. Níels keypti bréf í flokknum „KB EUR Bankar 2010 11.07.2010/KB bankar 10“ í gegnum útibú Kaupþings í Færeyjum. Eftir að útibúið var selt Eik banka þar í landi þá var hann upplýstur um að uskuldabréfin væru í raun ekki Kaupþings bréf, heldur skuldabréf skráð sem ,,Sx7P/Lehman 10 emtn“ útgefin innan Lehman Brothers Group eins og fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í dóminum kemur fram að Níels hafi lýsti kröfu í bú Lehman Brothers Treasury og að krafa hans var samþykkt. Hann hefur þegar fengið greidda fyrstu úthlutun upp í þá kröfu. Þá segir að á honum hvíli sönnunarbyrði fyrir tjóninu sem hann hefur hlotið vegna málsins. Í dóminum kemur fram að það sé með öllu óljóst hversu hátt hlutfall kröfu hans í bú Lehman Brothers Treasury verður greitt út til hans og því er óljóst hvert endanlegt umfang tjóns hans verður, eða hvort hann verði fyrir nokkru tjóni vegna þeirrar háttsemi starfsmanna varnaraðila að selja honum skuldabréf útgefin af Lehman Brothers Treasury.

Af þessari ástæðu er kröfunni hafnað og segir í dóminum að engu breyti hvort starfsmenn Kaupþings hafi við söluna á bréfunum saknæma og ólögmæta háttsemi, með villandi eða misvísandi upplýsingum um það hver væri raunverlegur útgefandi bréfa þeirra sem sóknaraðili keypti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur.