Hæstiréttur hefur snúið dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Kaupþingi sé heimilt að rifta þriggja milljarða endurgreiðslu á láni þann 20. júní 2008 til Raiffeisen Bank International.

Málavextir voru þeir að Kaupþing hafði í nóvember tekið lán að upphæð 300 milljónum evra frá fjórum bönkum sem var á gjalddaga ári síðar, þann 11. nóvember 2008. Meðal lánveitanda var Raiffeisen Bank International.

Í lánasamningnum voru þó ákvæði þess efnis að Kaupþing gæti endurgreitt lánið að fullu eða hluta fyrir gjalddagann. Þann 20. júní 2008 endurgreiddi Kaupþing Raiffeisen Bank sinn hluta lánsins að upphæð 75 milljónir evra. Taldi slitstjórn Kaupþings að með fyrirframendurgreiðslu lánsins hefði Kaupþing verið að ívilna kröfuhöfum sínum og bankinn hefði í mesta lagi mátt endurgreiða 50 milljónir evra. Þannig teldist eðlilegt að rifta 25 milljóna evra greiðslu til Raiffeisen eða sem samsvarar rúmum 3 milljörðum á gengi dagsins í dag.

Í Héraði hafði verið fallist á röksemdir Kaupþings en Hæstiréttur sneri við dómnum og taldi að endurgreiðslan hefði verið eðlileg. Því sé ekki heimilt að rifta greiðslunni. Þá var Kaupþingi einnig gert að greiða Raiffeisen Bank 10 milljónir króna í málskostnað.