Kaupþing hefur millifært um 315 milljarða króna af gjaldeyrisinnstæðum í Seðlabanka Íslands til erlendra viðskiptabanka Kaupþings. Færslurnar eru gerðar vegna komandi nauðasamninga Kaupþings.

Seðlabanki Íslands birti í dag uppfærðan efnahagsreikning sem dróst saman um 253,7 milljarða króna milli mánaða. Það er til viðbótar við um 33 milljarða samdrátt efnahagsins í ágústmánuði, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá .  Þá kannaðist Feldís Óskarsdóttir, sem situr í slitastjórninni, ekki við greiðslurnar. Davíð Stefánsson hjá Kaupþingi segir  hins vegar að greiðslurnar hafi farið fram dagana 31. ágúst og 5. september. Óskað var eftir millifærslum í lok ágústmánaðar og hafi sú fyrri gengið í gegn á síðasta degi mánaðarins. Ætlunin hjá slitastjórn hafi ekki verið sú að villa fyrir þegar Viðskiptablaðið leitaði til allra slitastjórna föllnu bankanna í síðasta mánuði.

Í tilkynningu frá Kaupþingi segir að Kaupþingi vinni nú ásamt ráðgjöfum og í nánu samráði við kröfuhafaráð að undirbúningi tillögu að nauðasamningi, líkt og fram hafi komið áður. Samningurinn feli meðal annars í sér útgreiðslur á fjármunum vegna endanlega samþykktra krafna en samhliða þeim þurfi Kaupþing einnig að setja trygginga fyrir greiðslu umþrættra krafna.

„Fjármunir Kaupþings í erlendum gjaldmiðlum, sem geymdir hafa verið hjá Seðlabanka Íslands (Seðlabankanum) hafa nú verið fluttir úr vörslu Seðlabankans til erlendra viðskiptabanka Kaupþings sem sinna munu þeirri sérhæfðu bankaþjónustu, sem þörf verður á í tengslum við útgreiðslurnar en slík þjónusta fellur ekki undir hlutverk Seðlabankans. Þessir fjármunir eru tilkomnir vegna endurheimta og annarra endurgreiðslna af erlendu lánasafni og öðrum eignum Kaupþings,“ segir í tilkynningu.

Lítil breyting á hreinum forða

Á vefsíðu Seðlabankans segir að samdráttur efnahagsreikningsins, sem rekja megi til þess að skuldir við fjármálafyrirtæki í slitameðferð minnkuðu, hafi verið fyrirséð. Erlendar eignir Seðlabankans nema nú um 532,6 milljörðum króna.

„Skýringin á því er í megindráttum sú að skuldir við fjármálafyrirtæki í slitameðferð minnkuðu, en innstæður á gjaldeyrisreikningum þeirra lækkuðu um 261,8 ma.kr. í mánuðinum.,“ segir á vef Seðlabankans. Hreinn gjaldeyrisforði, það er erlendar eignir að frádregnum erlendum skammtímaskuldum, breyttist hins vegar lítið, segir á vefsíðu bankans.

Undanþegin frá gjaldeyrishöftum

Fram kemur á vefsíðu Seðlabankans að fjármálafyrirtæki í slitameðferð geta tekið út gjaldeyrisinnstæður sínar í samræmi við lög um gjaldeyrismál hvenær sem er. Um er að ræða undanþáguákvæði 5. málsgreinar 13. greinar laganna.

„Frá því í október 2008 hafa fjármálafyrirtæki í slitameðferð lagt inn erlendan gjaldeyri á reikninga í Seðlabanka Íslands vegna endurheimta fjármuna. Hefur sá erlendi gjaldeyrir aukið vergan gjaldeyrisforða. Innstæðurnar hafa verið flokkaðar sem erlend skammtímaskuld og því ekki haft áhrif á hreinan gjaldeyrisforða. Erlendur gjaldeyrir sem lagður hefur verið inn á reikning í Seðlabankanum með þessum hætti hefur síðan verið ávaxtaður hjá öruggustu stofnunum sem völ er á, þ.e. Alþjóðagreiðslubankanum í Basel og hjá öðrum seðlabönkum. Fjármálafyrirtæki í slitameðferð geta tekið út gjaldeyrisinnstæður sínar í samræmi við ákvæði 5. mgr. 13. gr. n laga nr. 87/1992, hvenær sem er. Áhrif úttektanna eru þau að vergur gjaldeyrisforði Seðlabankans lækkar sem þeim úttektum nemur en hreinn gjaldeyrisforði (forði umfram skammtímaskuldir) Seðlabanka Íslands verður óbreyttur,“ segir á vefsíðu Seðlabankans.