Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings.

Ingólfur Helgason er dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi, en til frádráttar refsingu hans kemur gæsluvarðhaldsvist hans. Þá er Bjarki H. Diego dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi.

Sigurður Einarsson var dæmdur í eins árs fangelsi en Einar Pálmi Sigmundsson hlýtur tveggja ára fangelsisvist, en refsingu hans er frestað haldi hann skilorði. Pétur Kristinn Guðmarsson og Birnir Sær Björnsson voru dæmdir í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Hreiðar Már Sigurðsson var sakfelldur en honum ekki gerð refsing. Magnús Guðmundsson og Björk Þórarinsdóttir voru sýknuð.

Réttarhöld í málinu stóðu samtals í 22 daga og er málið eitt það umfangsmesta sem komið hefur fyrir dómstóla í sögunni. Um fimmtíu vitni gáfu skýrslu fyrir dóminum.

Í málinu var hinum ákærðu gefið að sök að hafa stundað umfangsmikil viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi í þeim tilgangi að stýra verðmyndun á hlutabréfum bankans. Í ákæru sérstaks saksóknara var því haldið fram að blekkingar og sýndarmennska hefði verið grunnur þessara umfangsmiklu viðskipta.