Söguleg tímamót urðu nú á dögunum þegar samþykkt var að slíta Kaupþingi ehf. Félagið varð til á grunni slitabús hins fallna banka um að selja eignir og greiða kröfuhöfum söluandvirðið.

Á hluthafafundi félagsins þann 28. júlí 2022 voru reikningar lagðir fram og í skilanefnd kjörnir Alan Carr, Paul Copley og Óttar Pálsson, stjórnarmeðlimir Kaupþings, að því er kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þeir hafa fengið löggildingu til starfsins af fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Í auglýsingunni er skorað á lánardrottna Kaupþings að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir lok kröfulýsingarfrests sem er 5. október 2022. Haldinn verður fundur með lánardrottnum og hluthöfum félagsins þann 3. nóvember á skrifstofu Kaupþings í Borgartúni 26.

Stærsti hluthafi Kaupþings er vogunarsjóðurinn Taconic Capital með 40% hlut, en þar á eftir kemur Deutsche Bank með 25% hlut, samkvæmt ársreikningi.

Hafa greitt 500 milljarða

Kaupþing hefur til dagsins í dag greitt skuldabréfaeigendum rúmlega þrjá milljarða punda, eða um 500 milljarða króna, með reiðufé. Það samsvarar 99,07% af nafnvirði breytanlegu skuldabréfanna.

Eignir Kaupþings í árslok 2021 námu 14,5 milljörðum króna. Þar af 9,6 milljarðar í lausafé og 4,5 milljarðar í kröfur á lánastofnanir.

Samkvæmt ársreikningi félagsins frá rekstrarárinu 2021 hafa rúmlega 5.900 kröfuhafar ekki enn sótt greiðslur samkvæmt nauðasamningnum. Þann 31. desember 2021 var félagið með 18,9 milljónir evra í reiðufé og 17,2 milljónir punda í breytanlegum skuldabréfum á vörslureikningum til að mæta greiðslum slíkra kröfuhafa.