Dæmi eru um að starfsmenn Kaupþings sem fengu lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum á sínum tíma hafi notað hluta þeirra í allt annað en til hlutabréfakaupa. Þetta staðfestir Guðni Ásþór Haraldsson, lögmaður slitastjórnar Kaupþings, í samtali við vb.is

„Þetta var í fæstum málum. En það eru til svona tilvik,“ segir hann og bætir við að um minni hluta lánanna sem tekinn var til hlutabréfakaupa hafi verið nýttur með þessum hætti. Þetta er í samræmi við úttekt sem PricewaterhouseCoopers gerði fyrir slitastjórnina fyrir tveimur árum um lánveitingar Kaupþings til lykilsstarfsmanna.

Fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis að lán Kaupþings til starfsmanna sem veitt voru til hlutabréfakaupa hafi numið 60 milljörðum króna þegar bankinn féll í október árið 2008.

Tveir Kaupþings-toppar nýttu féð í annað

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Arion banka gegn Ingólfi Helgasyni , fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, í vikunni kemur fram að hann hafi fengið 50 milljóna króna kúlulán hjá bankanum í janúar árið 2006 sem eyrnamerkt var til hlutabréfakaupa. Lánið notaði hann ekki til þess heldur var fjárhæðinni skipt í tvennt; 40 milljónir fóru inn á vörslureikning og 10 milljónir inn á innlánsreikning. Ingólfur lagði hlutabréf sem hann átti í Kaupþingi sem tryggingu fyrir láninu. Héraðsdómur dæmdi Ingólf til að greiða til baka sem nemur 10% af sjálfsskuldarábyrgð samkvæmt þeirri fjárhæð sem lánið stendur í í dag eða rúmar 9,3 milljónir króna.

Þetta er aðeins brot af lánum sem Ingólfur fékk til hlutabréfakaupa. Þau námu í heildina tæpum 3,5 milljörðum króna þegar bankinn fór í þrot fyrir fjórum árum.

Þá kom fram í dómi Hæstaréttar í máli Helga Þórs Bergs , fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárfestingarsviðs Kaupþings, gegn þrotabúi Kaupþings, að hann notaði rúmar 155 milljónir króna af tæplega 508 milljóna króna láni sem hann fékk hjá bankanum í apríl árið 2006 til kaupa á öðru en hlutabréfum. Hæstiréttur dæmi Helga til að endurgreiða þrotabúinu rúmar 640 milljónir króna.

Lögfræðingur slitastjórnar Kaupþings segir tilvikin fleiri en þessi tvö. Hann vildi hins vegar hvorki tjá sig um einstök mál né hversu mörg tilvikin voru.