Handboltaþjálfarinn Kristján Arason, fyrrverandi framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu Kaupþings, fékk samtals 103,5 milljónir króna af hlutabréfum sem hann átti í bankanum. Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Kristjáns í júlí í fyrra að hann hafi fengið 33,5 milljóna króna arð af bréfunum 11. mars 2008 og 70 milljónir þegar hann seldi hluta þeirra þremur vikum áður en bankinn fór í þrot í október árið 2008. Daginn eftir að Kristján fékk arðinn af bréfunum flutti hann þau inn í einkahlutafélagið 7 hægri ehf. skuldir fluttust með. Það voru lán sem Kaupþing lánaði honum til kaupa á hlutabréfunum upp á samtals 953 milljónir króna í ýmsum gjaldmiðlum, s.s. japönskum jenum, svissneskum frönkum, bandaríkjadölum og í evrum. Einkahlutafélagið hafði Kristján stofnað í febrúar árið 2008.

Hæstiréttur sýknaði Kristján af bótakröfu slitastjórnar Kaupþings í síðustu viku. Ítrustu kröfur Kaupþings hljóðuðu upp á að Kristján myndi greiða slitastjórninni um 500 milljónir til baka.

Fram kom í málinu að Kristján hafi ekki talið það skipta neinu máli að hann hafi fengið arð af hlutabréfaeigns inni enda hafi stjórnendur bankans vitað nákvæmlega hversu miklar arðgreiðslur áttu sér stað til hluthafanna á þessum tíma.

Í dómi héraðsdóms segir:

„Þessi framsetning í stefnunni hafi að mati stefnda því engan annan sýnilegan tilgang en að gera stefnda með einhverjum hætti tortryggilegan í augum lesandans, enda séu engar kröfur gerðar beint með vísan til arðgreiðslunnar.“