Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi yfirmanns Kaupþings í Lúxemborg og Skúla Þorvaldssyni, fjárfesti og eins helsta viðskiptavinar bankans. Kjarninn birti ákæruna rétt í þessu.

Hreiðar Már og Guðný eru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik og Magnús og Skúli eru ákærðir fyrir hlutdeild í meintum brotum.

Meintur fjárdráttur snýst annars vegar um millifærslu í lok árs 2007 að upphæð þremur milljörðum króna af reikningi Kaupþings banka inn á reikning Kaupþings í Lúxemborg. Þaðan var upphæðin millifærð inn á reikning félagsins Marple Holding sem var í eigu Skúla. Hins vegar snýst fjárdrátturinn um sambærilega millifærslu, að upphæð rúmum þremur milljörðum króna hálfu ári seinna, eða um mitt ár 2008, af reikningi Kaupþings og inn á reikning Marple, með viðkomu inn á reikningi Kaupþings í Lúxemborg. Í ákærunni segir að millifærslan frá Kaupþingi til Marple Holding hafi verið einhliða og ekki liður í lögmætum viðskiptum eða samningum.

Meint umboðssvik snúast um að Hreiðar og Guðný hafi misnotað aðstöðu sína með því að láta Kaupþing hf. kaupa skuldabréf, sem gefin voru út af Kaupþingi, af Marple Holding þann 20. maí 2008 á verði sem var langt yfir markaðsverði skuldabréfanna. Kaupin ollu því Kaupþingi hf. fjártjóni. Áður hafði Kaupþing í Lúxemborg keypt þessi sömu skuldabréf með miklum afföllum og síðan selt þau til Marple Holding á sama verði. Í ákærunni segir að með þessum hætti hafi ákærðu komið því í kring að mismunurinn á því verði sem Kaupthing banki hf. greiddi fyrir skuldabréfin og því verði sem Kaupþing Lúxemborg hafði keypt og selt bréfin á verð eftir hjá Marple Holding. Í ákærunni segir að tjón Kaupþings banka vegna umboðssvikanna hafi numið tæpum tveimur milljörðum króna.